Múhameðsteikning notuð í dönsku kosningabaráttunni

Það hefur vakið athygli í Danmörku og víðar að Danski þjóðarflokkurinn hefur notað Múhameðsteikningamálið í kosningabaráttu sinni. Í auglýsingu flokksins má sjá hönd teikna þekkta mynd af Múhameð spámanni. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Khaled al-Jabbari, talsmaður palestínsku al-Aqsa samtakanna segir í morgunútgáfu Jyllands-Posten í morgun að vel sé fylgst með kosningabaráttu flokksins í Miðausturlöndum og að óráðlegt sé fyrir hann að nota myndir af Múhameð í kosningabaráttu sinni. „Flokkurinn leikur sér með blóð danskra borgara,” segir hann.

Pia Kjærsgaard, formaður flokksins, segir ummælin óhugguleg en að ekki komi til greina að láta undan hótunum. „Það eru ekki við sem höfum gert þessa teikningu. Þetta er 400 ára gömul teikning af Múhameð sem við notum sem tákn um tjáningarfrelsið. Það er dæmigert að hryðjuverkasamtök hengi sig í það,” segir hún.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur og Per Stig Møller, utanríkisráðherra taka í sama streng segja al-Aqsa vera hryðjuverkasamtök og að ekki komi til grein að Danir láti hryðjuverkasamtök kúga sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka