Rice varar við of miklum væntingum varðandi Miðausturlönd

Palestínumenn mótmæla komu Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Miðausturlanda í …
Palestínumenn mótmæla komu Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Miðausturlanda í bænum Beit Horon á Vesturbakkanum í dag. AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði við því í dag að of miklar væntingar verði bundnar við fyrirhugaða ráðstefnu um deilur Ísraela og Palestínumenna í Annapolis í Bandaríkjunum. „Ég held að það sem við erum að byrja að sjá hérna sé það að fólk líti á Annapolis sem upphafspunkt en ekki tímamót, sagði Rice í Ísrael í dag. „Fólk er að byrja að taka um mjög erfiða hluti sem það hefur ekki talað um í langan tíma.

Rice átti fund með ísraelskum ráðamönnum í dag en á morgun mun hún hitta leiðtoga Palestínumanna. Eftir fundinn lýsti Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, því yfir að öryggi Ísraels verði að ganga fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. „Við verðum að byrja á því að tryggja öryggi Ísraels og stofna síðan sjálfstætt ríki Palestínumanna því það vill enginn sjá annað hryðjuverkaríki í þessum heimshluta,” sagði hún. „Ísraelar munu uppfylla þær kröfur sem til þeirra eru gerðar samkvæmt vegvísinum en það er grundvallaratriði að samkomulag um að stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna fylgi í kjölfar þess að farið sé að skilyrðum vegvísisins, m.a. um öryggismál Ísraels.”

Nabil Abu Rudeina, talsmaður Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, sagði yfirlýsingar Livni ekki hjálplegar. „Yfirlýsingar sumra ísraelskra embættismanna um að öryggi Ísraels gangi fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna standa í vegi fyrir samkomulagi,” segir hann. „Það er stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna sem mun tryggja öryggi og stöðugleika á svæðinu öllu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert