Bandaríkin, Írak og Tyrkland heita að starfa saman gegn PKK

Erdogan og Bush funduðu í Hvíta húsinu í Washington í …
Erdogan og Bush funduðu í Hvíta húsinu í Washington í dag. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti og Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, tilkynntu á sameiginlegum blaðamannafundi í Washington í dag að hernaðarleg samvinna ríkjanna verði efld. Tyrkir eiga í útistöðum við uppreisnarmenn úr röðum Kúrda sem halda til í Norður-Írak.

Bush greindi blaðamönnum frá nýju hernaðarbandalagi Bandaríkjanna, Tyrklands og Íraks í Hvíta húsinu í dag. Tilgangurinn með bandalaginu er að efla samvinnu milli leyniþjónustustofnanna landanna.

„Við vitum að það eru samgönguvandamál á flugvöllum. Við vitum að það er vandamál með fjármagn,“ sagði Bandaríkjaforseti og bætti við að bandarísk yfirvöld vinni nú að því að leysa þessi vandamál.

Að sögn Bush er þó höfuðáhersla lögð á það að samskipti leyniþjónustustofnananna séu góð. Fundur Bush og Erdogans fór fram í Hvíta húsinu í dag og krafðist forsætisráðherra Tyrklands að Bandaríkin grípi til markvissra aðgerða í baráttunni við uppreisnarmenn úr röðum Verkamannaflokks Kúrdistans (PKK), sem halda til í Norður-Írak.

„Lélegar upplýsingar þýðir að við getum ekki leyst vandamálið. Góðar og traustar upplýsingar, sem koma til okkar á rauntíma með hjálp nútímatækni, mun auðvelda það að leysa málið með viðeigandi hætti,“ sagði Bush og átti við PKK.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert