Himnasæla í bænum Hell

Það ríkir sannkölluð himnasæla hjá hjónunum John og Sue Wilson sem búa í bænum Hell í Michigan-ríki Bandaríkjanna. Hjónin duttu svo sannarlega í lukkupottinn þegar þau unnu 115.000 dali (tæpar sjö milljónir kr.) í happadrætti er þau voru að halda upp á hrekkjavökuna í síðustu viku.

„Hversu frábært getur þetta verið?“ sagði hin 43ja ára gamla Sue Wilson, sem starfar sem aðstoðarmaður kennara. Hún og eiginmaður hennar, sem starfar sem rafvirki, segjast ætla að nýta féð til þess að greiða skuldir, lagfæra heimilið og kaupa leikjatölvu handa syni sínum sem er 13 ára. Þá ætla þau kannski að heimsækja skyldmenni sín sem búa í Georgíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert