Hundruð lögreglumanna beittu táragasi og kylfum gegn lögmönnum, sem komu saman í dómshúsinu í borginni Lahore í Pakistan til að mótmæla neyðarlögum, sem Pervez Musharraf, forseti landsins, setti um helgina. Öryggissveitir um allt landið lokuðu dómhúsum til að koma í veg fyrir mótmælaaðgerðir gegn forsetanum.
Um 2000 lögmenn reyndu að fara út úr dómhúsinu í Lahore og halda fund í trássi við bann sem sett hefur verið gegn mótmælafundum. Þegar ljóst varð að lögmennirnir ætluðu að ganga skipulega út úr húsinu réðist lögreglan til atlögu og beitti kylfum og táragasi. Lögmennirnir köstuðu á móti grjóti og börðu á lögreglumönnum með trjágreinum.
Að sögn AP fréttastofunnar voru um 250 lögmenn handteknir í aðgerðunum.