Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að með setningu neyðarlaga brjóti stjórnvöld í Pakistan í bága við alþjóðalög og virði að vettugi stjórnarskrárvarin mannréttindi íbúanna.
Samtökin hafa fordæmt ákvörðun Pervez Musharrafs, forseta landsins, um að setja á neyðarlög og taka stjórnarskrá landsins úr gildi. Þau kalla eftir því að lýðræðislegir stjórnarhættir verði teknir upp á nýju í landinu og að yfirvöld sleppi hundruðum föngum.
Framkvæmdastjóri Amnesty International, Irene Khan, segir aðgerðir Musharrafs vera árás gegn dómskerfinu, mannréttindum, einkareknum fjölmiðlum og rétti stjórnarandstæðinga til að mótmæla með friðsömum hætti.
Musharraf segist hafa gripið til þessara aðgerða í þágu þjóðaröryggis og til að koma í veg fyrir klofning.
Fréttavefur Reuters skýrði frá þessu.