Greint hefur verið frá því að svínabóndi sem rekur fjögur svínabú á Jótlandi í Danmörku hafi svelt 500 grísi í hel. Þá þurfti lögregla að aflífa 179 grísi til viðbótar á búum hans vegna slæms aðbúnaðar.
Samkvæmt upplýsingum Kuno Jensen, yfirmanns lögreglunnar á Suðaustur-Jótlandi, fundu lögreglumenn 500 dauð svín er þeir fóru inn í svínabú bóndans í Hørning í Skanderborg í gærkvöldi. Þá segir hann að 179 svín hafi verið aflífuð á staðnum en að 1.000 svín hafi verið færð í hendur yfirvalda.
Við könnun á aðstæðum á öðrum búum bóndans kom í ljós að rekstur tveggja búanna var með eðlilegum hætti. Í svínbúi hans í Solbjerg fundust hins vegar um hundrað vannærð svín. Höfðu þau lagt sé dauð svín til munns. Einnig var mikið af rottum í svínastíunum, sem nærðust á svínshræjunum.