Það er bannað að deyja í þinghúsinu

Breska þinghúsið í London. Þar er betra að halda sér …
Breska þinghúsið í London. Þar er betra að halda sér á lífi svo menn komist ekki kast við lögin. Reuters

Það er ólöglegt í Bretlandi að deyja í breska þinghúsinu. Þótt undarlegt megi virðast þá eru þetta lög í landinu, og þau fáránlegustu ef marka má könnun sem bresk sjónvarpsstöð gerði.

Alls tóku 4.000 manns þátt í könnuninni en umrædd sjónvarpsstöð sérhæfir sig í því að sýna dramatíska lögfræðiþætti.

Þá er ekki sama hvernig menn klæða sig í þinghúsinu því það er ólöglegt að mæta í brynju. Ef einhver tæki upp á því kæmist hann í kast við lögin.

Meðal annarra laga sem breskum almenningi þykir vera út úr kortinu má nefna lög sem leyfa ófrískum konum að kasta af sér vatni í húfu lögreglumanns. Þá má myrða Skota innan gömlu borgamúranna í York, svo lengi sem Skotinn er vopnaður boga.

Tæplega helmingur þeirra sem svaraði könnuninni viðurkenndi að hafa brotið lög með því að borða kjötbökur á jóladag. Lögin voru samþykkt á 17. öld og var tilgangur þeirra að koma í veg fyrir að fólk æti yfir sig þegar hreintrúarmaðurinn Oliver Cromwell réði yfir Bretlandi.

Þessi gömlu lög voru grafin upp úr gömlum lögfræðiskruddum og í ljós kom að þau hafi aldrei verið afnumin. Þau voru hinsvegar síðar dæmd úrelt.

Tíu fáránlegustu lögin að mati Breta eru:

  1. Það er ólöglegt að deyja í breska þinghúsinu. (27% völdu þessi lög)
  2. Það jafngildir föðurlandssvikum að snúa frímerki með mynd af meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar á hvolf. (7%).
  3. Það er ólöglegt fyrir konur í Liverpool að ganga um berbrjósta nema þær starfi við afgreiðslu í verslun sem selur hitabeltisfiska. (6%).
  4. Það er bannað að borða kjötbökur á jóladag (5%)
  5. Í Skotlandi verður fólk að hleypa þeim einstaklingum inn sem berja á dyr og óska eftir að komast á klósettið. (4%).
  6. Ófrískar konur mega kasta af sér vatni hvar sem er, þ.á.m. í hjálm lögreglumanns. (4%).
  7. Höfuðið á dauðum hval, sem finnst einhversstaðar við strendur Bretlands, verður eign konungins. Drottningin eignast sporðinn. (3,5%).
  8. Það er ólöglegt að reyna komast hjá því að segja skattheimtumanni allt sem þú vilt ekki að hann viti, en það er löglegt að greina honum ekki frá upplýsingum sem þér er sama að hann viti um. (3%).
  9. Það er ólöglegt að mæta í þinghúsið íklæddur brynju. (3%).
  10. Það er leyfilegt að myrða Skota innan gömlu borgarmúranna í York, en aðeins ef hann er með boga og örvar. (2%).
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert