Frakklandsforseta ákaft fagnað á Bandaríkjaþingi

„Frakkland er vinur Bandaríkjanna,“ sagði Sarkozy við bandaríska þingmenn í …
„Frakkland er vinur Bandaríkjanna,“ sagði Sarkozy við bandaríska þingmenn í dag. AP

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti greindi Bandaríkjaþingi frá því í dag að Bandaríkin geti treyst á stuðning Frakka í stríðinu gegn hryðjuverkum í Afganistan og í kjarnorkudeilunni við Írana.

Þingheimur stóð upp fyrir Frakklandsforseta og klappaði honum lof í lófa. Þetta er í fyrsta sinn í yfir áratug sem forseti Frakklands ávarpar báðar deildir Bandaríkjaþings, segir á vef BBC.

Sarkozy, sem er í sinni fyrstu opinberu heimsókn til Washington, mun síðar funda með George W. Bush Bandaríkjaforseta í Mount Vernon, sem er skammt frá Washington.

Búist er við því að forsetarnir muni ræða um Írak, Íran og önnur málefni sem snerta Mið-Austurlönd.

Sarkozy, sem flutti ræðuna með aðstoð túlks, var ákaft fagnað þegar hann sagði: „Frakkland er vinur Bandaríkjanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert