Kínverskur vasi frá 18. öld var seldur á uppboði í dag fyrir um 2,5 milljónir punda. Það væri ekki frásögu færandi nema að vasinn hafði verið geymdur aftarlega inni í skáp eigandans þrjá áratugi.
Eigandi vasans, sem er kona frá Sviss, ákvað að setja gripinn á uppboð eftir að hún sá svipaðan vasa á safni í London. Vasinn, sem er blár og hvítur með drekamynstri, hafði verið geymdur aftarlega inni í skáp frá því á áttunda áratugnum. Þá höfðu sérfræðingar sagt við hana að um eftirlíkingu hafi verið um að ræða.
„Þeir gerðu henni stóran greiða,“ sagði Alastair Gibson, yfirmaður kínversku deildarinnar hjá Sothebys uppboðshúsinu í London. „Hann hefði verið um 10.000 punda virði þá og núna hefur fengist fyrir hann rúmar 2,5 milljónir.“
Mikill áhugi er eftir kínverskum forngripum um allan heim. Talið er að hluti þessarar miklu eftirspurnar megi rekja til kínverskra auðmanna sem vilja eiga minjagripi um kínverska keisaraveldið til forna.
Gibson sagði að vasinn, sem er frá tímum Qing keisaraættarinnar, og skreyttur fimm drekum, hafi verið í eigu fjölskyldunnar frá því á sjötta áratugnum. Vasinn hafði verið keyptur af þýskum forngripasala.
Þá var hann notaður undir blóm..