Fréttavefur norska blaðsins Aftenposten segir frá því að verið sé að flytja hundruð verkamanna á olíuborpöllum í Norðursjó á brott. Óveðrið sem verið hefur milli Íslands og Grænlands er á leið austur á bóginn og nær vesturströnd Noregs að öllum líkindum á aðfaranótt föstudags.
Norskir veðurfræðingar segja að mikill vindur verði þegar á svæðinu þegar á fimmtudagskvöld, einkum í Rogaland, Hordaland og Sogn og Fjordane.
Fyrirtækið ConocoPhillips, sem rekur sextán olíuborpalla, er að flytja 700 starfsmenn sína í land, en þar að auki verða 700 sendir á aðra borpalla. Alls eru þetta því 1.400 manns á fimm borpöllum, 130 manns hafa þegar verið fluttir á brott og er reiknað með að aðrir 300 verði ferjaðir í dag.