Pakistönsk stjórnvöld fyrirskipuðu í dag handtöku fjögurra manna, þriggja stjórnmálamanna og veralýðsleiðtoga, og hafa þeir verið kærðir fyrir landráð. Mennirnir héldu allir ræður þar sem ákvörðun forsetans Pervez Musharrafs um að setja neyðarlög í landinu er fordæmd. Þyngsta refsing í Pakistan við landráðum er dauðarefsing.
Fjórmenningarnir hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna varðhald og hafa þeim verið birtar ákærur. Tveir þeirra handteknu Hasil Bisenjo og Ayub Qureshi eru hátt settir meðlimir í Baluch, flokki þjóðernissinna, sá þriðji, Hasil Bizenjo, er leiðtogi verkamannaflokks Pakistans og sá fjórði verkalýðsleiðtoginn Liaquat Sahi.
Í gær voru gefnar út handtökuskipanir á hendur átta lögmönnum, þar af einni konu. Ákærurnar kveða á um landráð og að fólkið hafi hvatt til uppreisnar gegn neyðarlögunum. Lögmennirnir eru allir í felum.