Vildi taka sem flesta með sér í gröfina

Pekka-Eric Auvinen, átján ára nemi sem framdi fjöldamorðin í framhaldsskóla í Tuusula í Finnlandi í gær, vildi að sögn lögreglu taka sem flesta með sér í gröfina og réð tilviljun því hver fórnarlömbin voru. Þeir tólf sem særðust hafa allir fengið að fara heim, lögregla er hins vegar enn við rannsókn á svæði skólans og verður hann lokaður af þar til á föstudagskvöld.

Auvinen skaut síðasta skotinu klukkan 12:04 í gærdag, en kom á sjúkrahús klukkan 14:45. Lögregla segir við sænsk-finnska blaðið Hufvudstadsbladet að nauðsynlegt hafi verið að fara að öllu með gát til að reyna að tryggja að fórnarlömbin yrðu ekki fleiri og því hafi það tekið tíma að fara um allan skólann. Þegar lögreglan fann Auvinen var þegar vitað að þar væri árásarmaðurinn kominn, en hann var fluttur rakleiðis á sjúkrahús.

Fréttastofan AP hefur eftir Matti Tohkanen að Auvinen hafi verið meðlimur í byssuklúbbi og fengið leyfi fyrir byssunni þann 19. október síðastliðinn. Hann hafði ekki komið við sögu lögreglu og er sagður hafa tilheyrt „eðlilegri fjölskyldu".

Auvinen notaði netið til að vara við ódæðinu og reyna að vekja á sér athygli, syrgjendur hafa hins vegar einnig tekið netið í sína þjónustu og hafa á netinu bæði spunnist miklar umræður um árásina og hópar syrgjenda verið stofnaðir m.a. á Facebook bloggvefnum. Meðlimir stærstu hópanna telja þúsundir og skiptist fólk á tilfinningum sínum um atburðinn og hefur fjöldi ljóða til að mynda þegar verið skrifaður á vefsíður hópanna.

Þó eru til hópar sem taka undir hugmyndafræði Auvinen um villur mannkynsins. Sem dæmi hefur hópur verið stofnaður á netinu sem kallar sig Jokela High School Sympathy, sá fordæmir reyndar morðin en tekur undir hugmyndir unglingsins um að jarðarbúum verði að fækka og að fámenn menningarelíta eigi að halda um stjórnartaumana.

„Við erum krabbamein á hnettinum og okkur verður að fækka snarlega". Þar er ekki aðeins vitnað í Auvinen, heldur einnig finnskan rithöfund, Pentti Linkola, róttækan umhverfissinna sem margir kalla umhverfisfasista, en hann hefur hvatt til af-iðnvæðingar heimsins og sagt þjóðarmorð eina leiðina til að bjarga umhverfinu. Hugmyndir hans um einræðisríki þar sem horfið er aftur til miðalda og „gallaðir" einstaklingar myrtir hafa vakið reiði margra, en einnig aflað honum einhverra fylgismanna.

Þjóðarsorg er í Finnlandi í dag og er flaggað í hálfa stöng um landið allt, minningarathafnir hafa verið skipulagðar víða um landið, þar á meðal í Tuusula, en þar hefur kirkja verið tekin í notkun sem miðstöð fyrir þá sem þurfa á áfallahjálp að halda.

Fjöldi sorgarhópa hafa verið stofnaðir á netinu á þeim sólarhring …
Fjöldi sorgarhópa hafa verið stofnaðir á netinu á þeim sólarhring sem liðinn er frá morðunum AP
Jokela framhaldsskólinn verður lokaður af þar til á föstudagskvöld meðan …
Jokela framhaldsskólinn verður lokaður af þar til á föstudagskvöld meðan lögreglurannsókn stendur yfir AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert