59 börn létust í sjálfsvígsárásinni í Afganistan á þriðjudag og voru þau á aldrinum 8-18 ára. Fimm kennarar létust en alls voru fórnarlömb árásarinnar 75 talsins. Er þetta mannskæðasta árásin í Afganistan frá innrás Bandaríkjamanna inn í landið í nóvember 2001. Sex þingmenn voru meðal þeirra sem létust í árásinni.
Fjöldi fólks var samankominn hjá hópi hátt settra embættismanna sem var í skoðunarferð um sykurverksmiðju í bænum Pul-i-Khumri, um 150 km norður af Kabúl. Var tilgangur ferðarinnar að afla upplýsinga um viðskipti og stöðu efnahagsmála á svæðinu. Að sögn vitna gekk árásarmaðurinn inn í miðja þvöguna, með sprengju í annarri hendi og sprengjubelti um brjóstið.
Meðal þeirra sem biðu bana var Mustafa Kazimi, fyrrverandi viðskiptaráðherra sem fór fyrir efnahagsnefnd þingsins, ásamt því að vera lykilmaður í stjórnarandstöðunni.