Finnar hyggjast herða byssulöggjöfina

Mynd af byssunni sem Pekka-Eric Auvinen, setti á YouTube vefinn …
Mynd af byssunni sem Pekka-Eric Auvinen, setti á YouTube vefinn áður en hann hóf skothríð í Jokela framhaldsskólanum. Reuters

Finnar hyggjast herða byssulöggjöf sína eftir morðin í Jokela menntaskólanum í Tuusula. Í nýju lögunum fengju börn undir lögaldri ekki að kaupa byssur en mættu nota þær undir umsjá fullorðinna. Samkvæmt lögunum sem nú eru í gildi geta 15 ára unglingar keypt byssur með leyfi foreldra.

Samkvæmt fréttavef BBC er Finnland í þriðja sæti hvað almenna byssueign varðar meðal þjóða heimsins.

Einungis Bandaríkin og Jemen hafa fleiri byssur miðað við fólksfjölda.

Veiðar og skotfimi eru vinsæl iðja í Finnlandi og hafa stjórnvöld verið treg til að herða lögin í takt við evrópska löggjöf.

„Ríkisstjórnin er reiðubúin til að samþykkja tillögu þar sem 18 ára og yngri geta einungis notað skotvopn undir leiðsögn fullorðinna,” sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar í dag.

Í Finnlandi eru 56 byssur á hverja 100 íbúa en ofbeldisglæpir þar sem skotvopn eru notuð eru fáir, byssur eru notaðar í 14% allra morða sem framin eru í Finnlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert