Bernard Kerik, fyrrum lögreglustjóri New York borgar og viðskiptafélagi Rudolph Giuliano hefur verið ákærður fyrir spillingu og er búist við því að hann gefi sig fram við lögreglu fljótlega. Kerik er sakaður um að hafa þegið tugi þúsunda dala frá byggingarfyrirtæki sem sagt er tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.
Kerik komst í sviðsljósið eftir 11. september 2001 þegar hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á Bandaríkin. Hann skipulagði viðbrögð lögreglunnar í New York og sást oft við hlið Rudolph Giuliani, sem þá var borgarstjóri.
Til stóð að útnefna Kerik sem öryggisráðherra en hann dró sig í hlé eftir að hann var sakaður um framhjáhald og um að hafa hagnast á hlutabréfaviðskiptum með fyrirtæki sem framleiddi lömunarbyssur, sem gert hafði samninga við lögregluna í New York.
Sumir halda því fram að mál Keriks gæti haft slæm áhrif á feril Giuliani, sem undirbýr nú forsetaframboð.