Lögreglan finnur 10 boðorð mafíunnar á Sikiley

Lögregla fylgir Salvatore Lo Piccolo að lögreglubíl.
Lögregla fylgir Salvatore Lo Piccolo að lögreglubíl. Reuters

Lög­regla, sem hand­tók Sal­vatore Lo Piccolo, valda­mesta guðföður mafíunn­ar á Sikiley í vik­unni, fann einnig við hús­leit lista yfir 10 boðorð, sem fé­lag­ar í glæpa­sam­tök­un­um Cosa Nostra virðast eiga að fara eft­ir. Þeir verða m.a. að vera stund­vís­ir, forðast bari og sýna mafíunni al­gera holl­ustu.

Að sögn blaðsins Daily Tel­egraph ber list­inn, sem er vél­ritaður, yf­ir­skrift­ina: Rétt­indi og skyld­ur. Var blaðið meðal papp­íra, sem Lo Piccolo var með í leðurtösku þegar hann var hand­tek­inn.

Blaðið hef­ur eft­ir sér­fræðing­um í mál­efn­um mafíunn­ar, að list­inn bendi til þess að leiðtog­um glæpa­sam­tak­anna blöskri hegðun yngri manna, sem gengið hafa til liðs við mafíuna á und­an­förn­um árum.

Matteo Mess­ina Den­aro, sem nú þykir lík­leg­ur arftaki Lo Piccolo, ekur m.a. um á Porsche, og nýt­ur mik­ill­ar virðing­ar meðal ungra og metnaðar­gjarna fé­laga í mafíunni.

Regl­urn­ar 10 eru eft­ir­far­andi:

  1. Eng­inn get­ur kynnt sig beint fyr­ir öðrum vin­um okk­ar. Þriðji aðili verður að sjá um það.
  2. Aldrei horfa á eig­in­kon­ur vina.
  3. Aldrei láta sjá sig í návist lög­reglu­manna.
  4. Ekki fara á krár og klúbba.
  5. Alltaf vera til þjón­ustu reiðubú­inn því Cosa Nostra er skylda - jafn­vel þótt eig­in­kon­an sé í þann mund að fæða barn.
  6. Mæta verður á alla fundi sem boðað er til.
  7. Sýna verður eig­in­kon­um virðingu.
  8. Þegar óskað er eft­ir upp­lýs­ing­um verður svarið að vera sann­leik­an­um sam­kvæmt.
  9. Ekki má ráðstafa pen­ing­um sem til­heyra öðrum eða öðrum fjöl­skyld­um.
  10. Fólk sem ekki get­ur til­heyrt Cosa Nostra: Hver sá sem á ná­kom­inn ætt­ingja í lög­regl­unni, hver sá sem á svik­ul­an ætt­ingja, hver sá sem hegðar sér illa og virðir ekki siðaregl­ur og gildi.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka