Lögreglan finnur 10 boðorð mafíunnar á Sikiley

Lögregla fylgir Salvatore Lo Piccolo að lögreglubíl.
Lögregla fylgir Salvatore Lo Piccolo að lögreglubíl. Reuters

Lögregla, sem handtók Salvatore Lo Piccolo, valdamesta guðföður mafíunnar á Sikiley í vikunni, fann einnig við húsleit lista yfir 10 boðorð, sem félagar í glæpasamtökunum Cosa Nostra virðast eiga að fara eftir. Þeir verða m.a. að vera stundvísir, forðast bari og sýna mafíunni algera hollustu.

Að sögn blaðsins Daily Telegraph ber listinn, sem er vélritaður, yfirskriftina: Réttindi og skyldur. Var blaðið meðal pappíra, sem Lo Piccolo var með í leðurtösku þegar hann var handtekinn.

Blaðið hefur eftir sérfræðingum í málefnum mafíunnar, að listinn bendi til þess að leiðtogum glæpasamtakanna blöskri hegðun yngri manna, sem gengið hafa til liðs við mafíuna á undanförnum árum.

Matteo Messina Denaro, sem nú þykir líklegur arftaki Lo Piccolo, ekur m.a. um á Porsche, og nýtur mikillar virðingar meðal ungra og metnaðargjarna félaga í mafíunni.

Reglurnar 10 eru eftirfarandi:

  1. Enginn getur kynnt sig beint fyrir öðrum vinum okkar. Þriðji aðili verður að sjá um það.
  2. Aldrei horfa á eiginkonur vina.
  3. Aldrei láta sjá sig í návist lögreglumanna.
  4. Ekki fara á krár og klúbba.
  5. Alltaf vera til þjónustu reiðubúinn því Cosa Nostra er skylda - jafnvel þótt eiginkonan sé í þann mund að fæða barn.
  6. Mæta verður á alla fundi sem boðað er til.
  7. Sýna verður eiginkonum virðingu.
  8. Þegar óskað er eftir upplýsingum verður svarið að vera sannleikanum samkvæmt.
  9. Ekki má ráðstafa peningum sem tilheyra öðrum eða öðrum fjölskyldum.
  10. Fólk sem ekki getur tilheyrt Cosa Nostra: Hver sá sem á nákominn ættingja í lögreglunni, hver sá sem á svikulan ættingja, hver sá sem hegðar sér illa og virðir ekki siðareglur og gildi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert