Slagsmál brutust út í dag í Prag er hópur nýnasista gekk í gegnum hverfi gyðinga í borginni og voru að minnsta kosti áttatíu handteknir og 6 slösuðust í átökunum. Lögregla gerði talsvert magn vopna upptæk, gasbyssur, axir og fleira. Dagsetning göngunnar er táknræn, daginn eftir Kristallnacht, kristalnóttina svo kölluðu, árið 1938 er nasistar réðust inn í bænahús gyðinga og heimili gyðinga og fyrirtæki þeirra um allt Þýskaland og hluta Austurríkis.
Yfirvöld í Prag bönnuðu gönguna og um 1.400 lögregluþjónar voru í viðbragðsstöðu meðal annars óeirðalögregla. En andstæðingar kynþáttafordóma voru einnig í viðbragðstöðu og tóku á móti nýnasistunum með hörku er þeir reyndu að ganga í gegnum hverfi gyðinga í Prag.