Konungur Spánar, Juan Carlos, sagði forseta Venesúela, Hugo Chavez, að þegja á ráðstefnu ríkja Rómönsku Ameríku og á Íberíuskaganum í Santiago í Chile í kvöld. Juan Carlos lét ummælin falla eftir að Chavez kallaði fyrrverandi forsætisráðherra Spánar, Jose Maria Aznar, fasista.
En það var ekki nóg með að Chavez hafi kallað Aznar, sem var mikill stuðningsmaður forseta Bandaríkjanna, George W Bush, fasista heldur væru fasistar ekki mannlegir og að mannlegt eðli snáka væri meira.
Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar bað Chaves að gæta orða sinna betur eftir að Chavez lét ummælin falla um Aznar. Sagði Zapatero að Aznar hafi verið lýðræðislega kjörinn af íbúum Spánar og löglega kjörinn til þess að vera leiðtogi landsins.
Reyndi Chavez ítrekað að grípa frammí þrátt fyrir að slökkt hafi verið á hljóðnema hans. Endaði það með því að Spánarkonungi var nóg boðið, hallaði sér fram á borðið og sagði: „Vilt þú ekki þegja."