Þingflokksformaður jafnaðarmanna sagður hafa lekið upplýsingum

Kosningaauglýsingar í miðborg Kaupmannahafnar.
Kosningaauglýsingar í miðborg Kaupmannahafnar. Reuters

Danska blaðið Ekstra-Bladet fullyrðir í dag, að Henrik Sass Larsen, þingflokksformaður Jafnaðarmannaflokksins og helsti samstarfsmaður Helle Torning-Schmidts, formanns flokksins, hafi komið upplýsingum um innra starf flokksins til Venstre, flokks Anders Fogh Rasmussens, forsætisráðherra, í aðdraganda síðustu þingkosninga í Danmörku árið 2005.

Blaðið segir, að tilgangur Sass Larsens hafi verið að grafa undan Mogens Lykketoft, sem var formaður Jafnaðarmannaflokksins á árunum 2002-2006. Blaðið segir að Jens Rohde, sem var þingflokksformaður Venstre á árunum 2001-2006, hafi staðfest þessar upplýsingar. Sass Larsen vísar ásökununum hins vegar á bug og segir þær fáránlegar. Hann hafi aldrei komið neinum upplýsingum af þessu tagi til Venstre og Rhode standi í ófrægingarherferð gegn sér.

Rhode hætti þátttöku í stjórnmálum árið 2006 þegar hann tók að sér að stýra útvarpsrás TV2 í Danmörku. Sjónvarpsstöðin tilkynnti í morgun, að Rhode hefði verið vikið frá störfum fram yfir þingkosningarnar á þriðjudag vegna þess, að hann hefði með beinum hætti blandað sér í stjórnmál og það gæti hann ekki stöðu sinnar vegna.

Anders Kronborg, forstjóri TV2, sagði í morgun, að málið yrði rannsakað og ef í ljós kæmi, að Rhode hefði af eigin frumkvæði komið upplýsingum til Ekstra-Bladet vildi fyrirtækið ekki hafa hann lengur í þjónustu sinni. Ef hann hefði hins vegar aðeins staðfest upplýsingar sem Ekstra-Bladet hefði fengið með öðrum hætti liti málið öðru vísi út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert