Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleezza Rice sagði við Abdullah II Jórdaníukonung í dag að Washington hvikaði ekki frá því að koma á friði milli Ísraels og Palestínu og að efla öryggi og stöðugleika í Mið-Austurlöndum. Þetta kom fram í tilkynningu sem jórdanska konungshöllin sendi frá sér eftir að Rice og konungurinn ræddust við í síma í dag.
Konungurinn og Rice ræddu um komandi friðarráðstefnu þar sem fjallað verður um Mið-Austurlönd. Reiknað er með að ráðstefnan verði haldin í Annapolis í Maryland í Bandaríkjunum fyrir lok þessa árs.
Jórdanía styður heilshugar friðarviðræðurnar og undirritaði friðarsáttmála við Ísrael 1994.
Rice fundaði í síðustu viku með bæði palestínskum og ísraelskum leiðtogum um fyrirhugaða friðarráðstefnu, það var áttunda heimsókn hennar til Mið-Austurlanda á þessu ári.