Danska stjórnin heldur velli samkvæmt síðustu könnun

Anders Fogh Rasmussen ræðir við námsmenn í kosningabaráttunni.
Anders Fogh Rasmussen ræðir við námsmenn í kosningabaráttunni. Reuters

Stór skoðanakönnun, sem Gallup gerði í Danmörku og birt var í kvöld, bendir til þess að danska ríkisstjórnin haldi velli í þingkosningunum á morgun. Stuðningur við stjórnarflokkana Venstre og Danska þjóðarflokkinn hefur einkum farið vaxandi nú síðustu daga en á sama tíma hefur fylgið hrunið af Ny Alliance, flokki Nasers Khaders, sem um tíma virtist myndu lenda í lykilaðstöðu við stjórnarmyndun.

Samkvæmt könnuninni fær Ny Alliance aðeins 2,5% atkvæða en flokkar verða að fá 2% til að fá þingmenn kjörna. Khader er talinn hafa leikið af sér í sjónvarpsumræðum flokksleiðtoga á sunnudag þegar hann lýsti því yfir, að hann styddi Anders Fogh Rasmussen, leiðtoga Venstre, til áframhaldandi setu í embætti forsætisráðherra.

Samkvæmt könnuninni, sem Berlingske Tidende birtir á vef sínum í kvöld, mælist fylgi Venstre 28,1% og fylgi Danska þjóðarflokksins mælist 14,1% og hefur aldrei verið meira. Stjórnarflokkarnir þrír, Venstre, Íhaldsflokkurinn og Danski þjóðarflokkurinn, fá samtals 93 þingmenn samkvæmt könnuninni.

13,4% af dönskum kjósendum segjast enn ekki hafa ákveðið sig.

Skoðanakönnunin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert