Flugfélög hvött til þess að láta feita einstaklinga greiða hærra verð

Leiðandi næringarfræðingur í Ástralíu hefur hvatt flugfélög til þess að láta flugfarþega sem eiga við offituvanda að etja greiða hærri flugfargjöld en þá sem léttari eru. John Tickell telur að slík skattlagning myndi bæði varpa ljósi á offituvandann í landinu og vera skynsamlegt um leið, því eldsneytiseyðsla flugvéla sé meiri því þyngri sem hún er.

Ýmsir hópar hafa hinsvegar varað við því að það sé óskynsamlegt að taka þá sem eru of feitir sérstaklega fyrir þar sem það gæti valdið þeim sálrænum skaða.

Samkvæmt nýlegum rannsóknum eru 67% ástralskra karla og helmingur kvenna, sem eru 25 ára og eldri, annað hvort of þung eða eiga við offituvandamála að stríða.

Sérfræðingar hafa varað við því að árið 2030 muni helmingur allra barna í landinu vera of þung eða eiga við offituvandamál að etja verði ekkert aðhafst í málinu.

Í mars sl. urðu heilbrigðisstofnanir að útbúa sjúkrabíla sína með sérstökum styrktum sjúkrabörum sem geta borið einstaklinga sem eru of þungir, enda hefur slíkum sjúklingum fjölgað mjög.

Tickell, sem er leiðandi næringarfræðingur sem gefið hefur út bækur um næringarfræði, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að samfélagið eigi að taka harðari í afstöðu sinni gagnvart offituvandanum og flugfarþegum sem eru of feitir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert