Greint hefur verið frá því að piltur sem situr í fangelsi í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, fyrir að skipuleggja fjöldamorð í skóla sínum, hafi átt tölvupóstsamskipti við finnskan táning sem varð átta manns að bana í skotárás í skóla í Jokela í Finnlandi . Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
J. David Farrell, lögfræðingur hins fjórtán ára Dillon Cossey, segir hann hins vegar ekki hafa fengið neinar vísbendingar um fyrirhugaða árás Pekka-Eric Auvinen. „Við erum sannfærð um að staðreyndir málsins muni leiða í ljós að Auvinen skipulagði ódæðið algerlega upp á eigin spýtur og án nokkurrar hvatningar frá skjólstæðingi mínum eða nokkrum öðrum,” segir Farrell.
Hann staðfestir þó að piltarnir hafi verið í sambandi eftir að Cossey var handtekinn og segir Cossey sleginn yfir því að maður sem hann hafi verið í sambandi við hafi framið annað eins ódæði. Þá segir hann samskipti piltanna hafa snúist um sameiginlegan áhuga þeirra á ákveðnum tölvuleikjum og netsíðum.
Dagblaðið The Times of London greindi frá því í gær að piltarnir hefðu kynnst í gegn um minningarsíðu á netinu um Eric Harris og Dylan Klebold, sem frömdu fjöldamorð í Columbine skólanum í Colorado árið 1999.
Auvinen, sem var 18 ára, lést af sárum sem hann veitti sjálfum sér eftir að hann skaut þrjár konur og fimm pilta til bana í Jokela í síðustu viku.