Joensen tryggir Fogh meirihluta á danska þinginu

Anders Fogh Rasmussen ávarpar kosningavöku Venstre í Kaupmannahöfn í kvöld.
Anders Fogh Rasmussen ávarpar kosningavöku Venstre í Kaupmannahöfn í kvöld. AP

Edmund Joensen, þingmaður Sambandsflokksins, og Høgni Hoydal, þingmaður Þjóðveldisflokksins, voru í dag kjörnir á danska þingið fyrir hönd Færeyja. Sambandsflokkurinn er systurflokkur Venstre í Danmörku og því þykir ljóst, að dönsku stjórnarflokkarnir ráða 90 þingsætum á danska þinginu og þar með meirihluta án þess að treysta á flokkinn Ny Alliance.

Endanlegar tölur í kosningunum í Danmörku eru þær, að Venstre er stærsti flokkur landsins með 26,3% atkvæða og 46 þingmenn en tapar 6 þingsætum frá kosningunum árið 2005. Íhaldsflokkurinn, hinn stjórnarflokkurinn, fær 10,4% og 18 þingsæti eins og síðast. Danski þjóðarflokkurinn, sem hefur veitt ríkisstjórninni stuðning síðustu tvö kjörtímabil, fékk 13,8% atkvæða og 25 þingmenn, bætir við sig einum manni. Samtals fá flokkarnir þrír 89 þingmenn og með Færeyingnum Joensen ráða þeir 90 þingsætum af 179 á danska þinginu.

Jafnaðarmannaflokkurinn fékk 25,5% atkvæða og 45 þingsæti, tapaði 2 og hefur aldrei fengið jafn lífið fylgi í kosningum. Sósíalíski þjóðarflokkurinn fékk 13% atkvæða og 23 þingsæti, bætti við sig 12. Det Radikale Venstre fékk 5,1% atkvæða og 9 þingsæti, tapaði 8, og Einingarlistinn fékk 2,2% atkvæða og 4 þingsæti, tapaði 2. Kristilegi demókrataflokkurinn fékk 0,9% atkvæða og kom ekki mönnum á þing. Ekki er búið að telja atkvæði á Grænlandi en búist var við að flokkarnir IA og Siumut komi sínum mönnum að. Þessir flokkar hafa stutt Jafnaðarmannaflokkinn á danska þinginu.

Ny Alliance, sem er nýr flokkur, fékk 2,8% atkvæða og 5 þingsæti. Naser Khader, formaður flokksins, hefur lýst stuðningi við stjórnarflokkana. Khader hvatti þó Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, til að ganga á fund Margrétar Danadrottningar og fá nýtt umboð til stjórnarmyndunar. Ólíklegt er að Fogh Rasmussen geri það, en hann sagði í sjónvarpsumræðum formanna flokkanna í kvöld að hann ætlaði að sjá endanleg úrslit kosninganna áður en hann tæki um það ákvörðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert