Kjörstaðir voru opnaðir klukkan 8 að íslenskum tíma í Danmörku en þar verður kosið til þings í dag. Alls hafa 4.025.157 manns atkvæðisrétt í kosningunum þar sem kosnir verða 179 þingmenn, 175 í Danmörku og fjórir frá Grænlandi og Færeyjum. Í síðustu kosningum var kjörsókn 84,5%. Kjörstöðum verður lokað klukkan 19 að íslenskum tíma.
Skoðanakannanir undanfarna daga hafa bent til þess að ríkisstjórn Venstre, Íhaldsflokksins og Danska þjóðarflokksins haldi velli og þurfti ekki á liðsauka flokksins Ny Alliance að halda.
Kannanir sem birtust í gærkvöldi voru þó nokkuð misvísandi. Gallupkönnun, sem Berlingske Tidende birti, benti til þess að stjórnarflokkarnir þrír fái 93 þingsæti og öruggan meirihluta en stjórnarandstaðan 78. En könnun, sem Catinét gerði fyrir Ritzau fréttastofuna, bendir til þess að afar mjótt verði á mununum.
Könnunin bendir til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir Jafnaðarmannaflokkurinn, Det Radikale Venstre, Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Einingarlistinn fái 83 þingsæti í Danmörku en stjórnarflokkarnir 87 þingsæti. Þá verði báðir þingmenn Grænlands kosnir úr röðum stjórnarandstæðinga en óvíst er um 2 þingmenn sem kjörnir eru í Færeyjum. Þá gætu þingmenn Ny Allience ráðið úrslitum en hugsanlegt er að flokkurinn fái ekki 2% atkvæða sem þarft til að ná manni á þing.