Sósialíski þjóðarflokkurinn er sá danski stjórnmálaflokkur, sem hefur staðið sig best í konsingabaráttunni. Síðustu kosningaspár benda til þess að flokkurinn fái rúmlega 13% atkvæða og 23 þingmenn, bæti við sig 7 prósentum frá kosningunum árið 2005 og 12 þingmönnum. Villy Søvndal, leiðtogi flokksins, var að vonum ánægður þegar hann hélt ræðu á kosningahátíð flokksins í Pumpehuset í miðborg Kaupmannahafnar.
Søvndal sagði, að það hefði verið markmið stjórnarandstöðunnar að sjá til þess að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, yrði að leita sér að nýju starfi en það hefði ekki tekist og í raun væri Fogh Rasmussen sigurvegari kosninganna Hann sagði að staða Rasmussens hefði þó veikst við kosningarnar ef stjórnin þyrfti að semja við Ny Alliance og ef það yrði raunin mættu menn búast við talsverðri skemmtun á næsta kjörtímabili.
Samkvæmt síðustu kosningaspá danska sjónvarpsins fá stjórnarflokkarnir þrír auk Ny Alliance samtals 94 þingsæti en stjórnarandstöðuflokkarnir 81. Samkvæmt spánni koma bæði Ny Alliance og Einingarlistinn að þingmönnum.