Stuðningur við Hamas fer dvínandi á Gasasvæðinu

Frá minningarsamkomu stuðningmanna Fatah-hreyfingarinnar á Gasasvæðinu í gær.
Frá minningarsamkomu stuðningmanna Fatah-hreyfingarinnar á Gasasvæðinu í gær. AP

Leiðtogar palestínsku Fatah-hreyfingarinnar eru sagðir vonast til að átök öryggissveita Hamas-samtakanna og stuðningsmanna Fatah á Gasasvæðinu í gær marki upphaf endaloka stjórnar Hamas á svæðinu. Sjö létu lífið og tugir slösuðust er öryggissveitarmennirnir skutu á mannfjölda sem var saman kominn til að minnast þess að þrjú ár voru liðin frá andláti Yassers Arafats, fyrrum leiðtoga Palestínumanna. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Andstaða við stjórn Hamas á svæðinu er sögð hafa vaxið mjög á undanförnum vikum og samkvæmt fréttum Al Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar sem er hliðholl Fatah tóku um 200.000 manns þátt í minningarsamkomunni um arafat í gær. Þykja atburðirnir í gær líklegir til að ýta enn frekar undir andstöðu við samtökin en fimm mánuðir eru frá því Hamas-samtökin náðu völdum á svæðinu.

Samkvæmt könnunum palestínsku rannsóknarstofnunarinnar Jerusalem Media Communication Center var stuðningur við Fatah 30,6% á Vesturbakkanum og Gasasvæðinu í september á síðasta ári en er nú 40%. Á sama tíma hefur stuðningur við Hamas minnkað úr 29,7% í 19,7%. Samkvæmt nýjustu könnun samtakanna er Ismail Haniyeh, fyrrum forsætisráðherra Hamas-samtakanna þó enn annar vinsælasti stjórnmálamaður Palestínumanna á eftir Mahmoud Abbas, kjörnum leiðtoga þeirra. Hann hefur hins vegar lítil sem engin völd eftir valdatöku Hamas á Gasasvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert