CNN ætlar að fjölga starfsmönnum

Fréttastofan CNN ætlar að fjölga starfsmönnum á ritstjórn og í framleiðslu um 10% sem lið í að auka fréttaþjónustu sína. CNN Worldwide, sem er dótturfélag Time Warner, ætlar að fjölga fréttariturum sínum um 15 eða 16 í 150 og er áætlað að það muni kosta félagið tæpar tíu milljónir dala.

Fyrir tveimur mánuðum greindi CNN frá því að samningur við Reuters fréttastofuna um fréttaþjónustu frá þeirri síðarnefndu yrði ekki endurnýjaður þar sem stefnt væri að því að fjölga fréttariturum CNN víða um heim.

Samkvæmt upplýsingum frá CNN verður starfsfólki fjölgað í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Jóhannesarborg og Mexíkó. Auk þess sem nýjar starfsstöðvar verða settar á laggirnar í Afganistan, Belgíu, Indlandi, Kenýa, Malasíu, Nígeríu, Filippseyjum, Póllandi og Víetnam á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert