Einbýlishúsið sprakk í tætlur

Einbýlishús í Limhamn á Skáni í Suður-Svíþjóð gjöreyðilagðist í því sem talið er hafa verið gassprenging en húsin í hverfinu eru hituð með jarðgasi eins og mörg hús á Skáni. Neyðarþjónustan fékk viðvörun um að það væri gaslykt í götunni um klukkan tvö í dag en húsið sprakk áður en slökkvilið náði á staðinn.

Að sögn slökkviliðsmanna var hvellurinn ógurlegur en ekki er vitað hvað leiddi til sprengingarinnar.

Mats Nilsson slökkviliðsstjóri sagði í samtali við Dagens Nyheter að aðkoman hefði verið líkt og hverfið hefði orðið fyrir sprengiárás.

Gler í fjölda húsa brotnaði í grenndinni og fljótlega var gripið til þess ráðs að rýma öll hús í hverfinu.

Búið er að loka fyrir gasið og telja menn að hættan sé liðin hjá.

Ekki er vitað til þess að nokkur hafi slasast.

Hjá gasfyrirtækinu Eon Gas, segja menn að þetta sé ótrúlega sjaldgæft. Það þarf þrjár tilviljanir samtímis til að kveikja í jarðgasi, það þarf að leka út í lokuðu rými og það þarf að blandast lofti í réttu magni og síðan þarf eitthvað að kveikja í því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert