Hilde Pedersen, sem býr Førresfjörð í Noregi, vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið þegar lögregla bankaði á dyr hennar og krafði hana svara um byssu sem hún átti að vita um og hugsanlega hafa skilið eftir á tilteknum tröppum.
„Mér brá við að sjá þá," hefur Haugesunds Avis eftir Petersen. „Og mér brá enn meira þegar ég heyrði spurningarnar... Þetta var afar óþægilegt."
Yfirheyrslurnar stóðu yfir í 45 mínútur og var Petersen m.a. spurð hvort Leif Harry Ersland, sambýlismaður hennar, væri byssuáhugamaður eða hvort hann ætti einhverja óvini. Lögreglan fór að lokum, litlu nær. Hálftíma síðar var hringt af lögreglustöðinni og sagt að málið væri allt misskilningur. Leif Harry, sambýlismaður Pedersen, ætlaði að skila heftibyssu, sem hann hafði fengið lánaða og var í sumarhúsi parsins ekki langt frá. Hann sendi SMS til eiganda byssunnar þar sem stóð: byssan er í kofatröppunum.
Því miður sló Ersland inn rangt símanúmer og kona, sem býr í Stafangri fékk skilaboðin. Henni þótti þau grunsamleg og hafði samband við lögreglu sem brást hratt við og vildi upplýsa þessi dularfullu vopnaviðskipti.
Margot Aasbø Haugland, eigandi byssunnar, segist í samtali við blaðið vera miður sín yfir þessu hafaríi. Hún hafi bara viljað fá heftibyssuna sína aftur því hún ætlaði að búa til vetrarskýli fyrir blómin sín.