Bandarískar bridskonur í kröppum dansi vegna Bush-mótmæla

Bandaríska kvennaliðið á verðlaunapalli í Shanghai með matseðilinn umdeilda.
Bandaríska kvennaliðið á verðlaunapalli í Shanghai með matseðilinn umdeilda.

Það vakti litla athygli umheimsins þegar bandaríska kvennalandsliðið vann heimsmeistaramótið í brids í Shanghai í Kína um miðjan október. Nú mánuði síðar er liðið hins vegar komið í heimsfréttirnar vegna óvenjulegra mótmælaaðgerða gegn George W. Bush, Bandaríkjaforseta, sem það stóð fyrir í verðlaunahófi mótsins.

Þegar liðið stillti sér upp á sviðinu eftir að hafa tekið við Feneyjaskálinni, verðlaunagrip heimsmeistaramótsins, héldu konurnar á lofti matseðli og aftan á hann hafði verið skrifað: Við kusum ekki Bush.

Bandaríska bridssambandið telur, að liðið hafi með þessu verið að gefa pólitíska yfirlýsingu og segir, að slíkt hafi verið sérstaklega óviðeigandi í Kína þar sem pólitískt andóf er ekki vel séð, svo vægt sé til orða tekið.

Hefur bridssambandið hótað, að úrskurða konurnar í árs keppnisbann og krafist þess að þær sendi frá sér afsökunarbeiðni. Þrjár þeirra munu hafa orðið við því en fjórar ekki.

Gerðum þetta saman
„Við gerðum þetta saman, sennilega á mismunandi forsendum hver og ein," hefur AFP fréttastofan eftir Gail Greenberg, fyrirliða liðsins. „Ég gerði þetta sem fyrirliði vegna þess að ég hafði orðið var við svo mikla andúð á Bandaríkjunum og mér þótti það miður. Í öll þau skipti, sem ég hef staðið á verðlaunapalli - og þetta var sjötta heimsmeistaramótið mitt - fundum við fyrir miklum stuðningi. En í Shanghai mættum við ekki sömu hlýjunni og ég vildi koma því á framfæri að ég gerði mér grein fyrir því."

Greenberg sagði, að margir í salnum hefðu tekið þessari óvæntu yfirlýsingu liðsins vel. „En landar okkar brugðust hart við og töldu, að þetta bæri vott um skort á föðurlandsást og væri hræðilegur hlutur, einkum í Kína þar sem ekki má segja neitt neikvætt um ríkisstjórnina."

Málið hefur hefur að vonum vakið talsverðra athygli í bridsheiminum. Franska kvennalandsliðið, sem keppti í Shanghai, hefur sent frá sér tölvupóst þar sem segir, að með því að fjalla um þessi mál með léttlyndum og friðsamlegum hætti hafi bandaríska kvennaliðið gert það sem konur um allan heim hafi ávallt reynt að gera þegar þær vilja andæfa heimskupörum karlmanna, sem hafi misst sjónar á veruleikanum.

Snýst ekki um málfrelsi
Á vef bandaríska bridssambandsins kemur fram, að einstakir stjórnarmenn muni ekki tjá sig um málið en vísað er til ályktunar, sem samþykkt var á stjórnarfundi. Þar segir m.a. að þetta mál snúist ekki um málfrelsi heldur um það, hvort sambandinu beri skylda til þess að refsa þeim sem hegða sér þannig að það sé fallið til að grafa undan hagsmunum sambandsins og meðlima þess.

Sérstök nefnd á að taka um það ákvörðun í lok mánaðarins hvaða refsiaðgerða gripið verður til. Greenberg segir, að ef spilararnir verði dæmdir í keppnisbann komi það niður á þeim fjárhagslega en liðsmennirnir eru flestir atvinnumenn í brids.

Þess má geta, að tvö bandarísk kvennalið tóku þátt í heimsmeistaramótinu í Shanghai. Hjördís Eyþórsdóttir var í hinu liðinu, en það komst ekki á verðlaunapall.

Heimasíða Bridssambands Bandaríkjanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert