Ítalskur lögreglumaður sem skaut aðdáanda knattspyrnuliðsins Lazio til bana um síðustu helgi verður ákærður fyrir morð, að því er verjandi hans segir.
Ítalska lögreglan hefur lýst því yfir að það hafi verið „skelfilegt slys“ þegar hinn 26 ára Gabriele Sandri varð fyrir kúlu úr byssu lögreglumannsins.
Frá þessu greinir fréttavefur BBC.
Búist hafði verið við að lögreglumaðurinn yrði ákærður fyrir manndráp, en verjandi hans sagði í dag að morðákæra væri í burðarliðnum.
Sandri fékk byssukúlu í hálsinn þar sem hann sat í bíl í borginni Arezzo í Toskanahéraði þar sem lögreglan var að reyna að stilla til friðar í óeirðum milli aðdáenda Lazio og Juventus.
Fjölmennar mótmælaaðgerðir knattspyrnuaðdáenda hvarvetna á Ítalíu fylgdu í kjölfarið.
Lögreglumaðurinn, Luigi Spaccarotella, hefur greint frá því að skot hafi hlaupið úr byssu sinni er hann verið á hlaupum. Hann hafi þá verið í meira en 200 metra fjarlægð frá Sandri.