SÞ segir mögulegt að friðargæsluverkefnið í Darfur misheppnist

Bílar friðargæsluliða sjást hér lagðir fyrir framan nýja bækistöð sameiginlegst …
Bílar friðargæsluliða sjást hér lagðir fyrir framan nýja bækistöð sameiginlegst friðargæsluliðst SÞ og Afríkusambandsins í Darfur. AP

Háttsettur embættismaður hjá Sameinuðu þjóðunum segir mögulegt að sameiginlegt friðargæsluverkefni SÞ og Afríkusambandsins í Darfur gæti misheppnast nema að ríki geti útvegað þyrlur og vörubifreiðar.

Þá segir hann jafnframt að yfirvöld í Súdan ógni verkefninu þar sem þau hafi ekki sæst á það hvernig friðargæslusveitirnar verði byggðar upp.

Stefnt er að því að senda 26.000 friðargæsluliða til Darfur sem eiga að hafa það verkefni að stilla til friðar, en þar hafa átök staðið yfir í fjögur ár.

Þá er stefnt að því að friðargæsluliðarnir verði komnir á áfangastað innan sex vikna. Ferlið gæti hinsvegar tafist verði nauðsynlegur útbúnaður ekki til staðar.

Jean-Marie Guehenno, sem er yfirmaður friðargæsluliðadeildar SÞ, sagði við blaðamenn að friðargæslusveitin þurfi sex árásarþyrlur og 18 flutningaþyrlur eigi hún að geta sinnt störfum sínum almennilega.

Hann lýsti einnig áhyggjum yfir því að stjórnvöld í Súdan hafi enn ekki samþykkt hvernig friðargæsluliðið verði uppbyggt, segir á fréttavef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert