Hugo Chavez, forseti Venesúela, krafðist þess í kvöld að Jóhann Karl, Spánarkonungur, bæði hann afsökunar á að hafa sagt honum að þegja á leiðtogafundi í Chile í síðustu viku. Spánarkonungur missti þolinmæðina þegar Chavez kallaði José María Aznar, fyrrverandi forsætisráðherra Spánar, fasista.
„Ég á að minnsta kosti rétt á því, að Spánarkonungur, sem er ekki konungur Latnesku Ameríku, biðjist með einhverjum hætti afsökunar á að hafa ráðist á mig með þessum hætti," sagði Chavez við ríkissjónvarpsstöðina VTV.
Chavez segist hvorki hafa séð né heyrt í konungi en Chavez átti í orðaskiptum við José Luis Rodríguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, á fundinum þegar þetta átti sér stað.
„Hefði ég heyrt í honum - hefði ég starað á hann eins og indíáni vegna þess að ég er indiáni og líka með svart og hvítt blóð," sagði Chavez.
Zapatero sagði í gær, að konungurinn hefði aðeins verið að verja hann á fundinum en Chavez greip ítrekað fram í ræðu Zapateros áður en Jóhann Karl sagði: „Hvers vegna heldur þú þér ekki saman?"