Nítján stúlkur hafa lagt fram kæru á hendur rússneskum kaupsýslumanni, sem var handtekinn í Kambódíu í síðasta mánuði, fyrir kynferðislegt ofbeldi. Að sögn lögreglu hafa aldrei jafn mörg börn lagt fram kæru á hendur einum manni í Kambódíu vegna kynferðislegs ofbeldis.
Alexander Trofimov, sem er 41 árs að aldri er stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Koh Puos, var handtekinn í bænum Sihanoukville en talið var að hann hefði nauðgað að minnsta kosti sex stúlkum. Rannsókn lögreglu hefur síðan leitt í ljós að hann hafi beitt 19 stúlkur kynferðislegu ofbeldi.
Að sögn lögreglu hefur ekkert viðlíka mál komið upp í landinu áður en stúlkurnar sem eru nú á aldrinum 11-18 ára en voru mun yngri þegar ofbeldið átti sér stað.
Ef Trofimov verður fundinn sekur um barnaníð á hann yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi fyrir hvert brot. Auk Rússans voru þrír innlendir menn handteknir og eru þeir ákærðir fyrir að hafa útvegað barnaníðingnum stúlkubörn. Þeir sem gerast sekir um mansal á tengslum við kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum undir 15 ára aldri í Kambódíu eiga yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisdóm. Svo virðist sem að minnsta kosti tvær stúlknanna hafi verið seldar Rússanum af foreldrum sínum.
Í september í fyrra heimiluðu stjórnvöld í Kambódíu fyrirtæki Trofimov að setja á laggirnar dvalarstað fyrir ferðamenn á eyjunni Koh Puos sem er rétt fyrir utan bæinn Sihanoukville. Hefur hann fjárfest fyrir um 300 milljónir Bandaríkjadala í verkefninu. Frá árinu 2005 hafa barnahjálparsamtök fylgst með Trofimov þar sem hann var grunaður um barnaníð í Kambódíu.