Fimm vinir hafa sett upp heimasíðu þar sem Dönum er boðið að leggja fram fé, á milli 100 og 500 danskar krónur hver, til þess stjórnmálamanns, sem er tilbúinn að yfirgefa flokkabandalag Venstre, Íhaldsflokksins og Danska þjóðarflokksins og fella þar með núverandi ríkisstjórn. Flokkarnir þrír ráða 90 þingsætum af 179 í danska þinginu eftir kosningar á þriðjudag.
„Við sátum saman daginn eftir kosningarnar og leist ekkert á niðurstöðuna. Þess vegna veitti okkur ekki af að gera eitthvað skemmtilegt og ákváðum að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd án þess að hugsa mikið um afleiðingarnar. Nú eru þær byrjaðar að koma í ljós," hefur fréttavefur Jyllands-Posten eftir Dennis Flood, talsmanni heimasíðunnar flytetmandat.dk.
Blaðið hefur eftir Piu Kjærsgaard, formanni Danska þjóðarflokksins, að hún hafi ekki áhyggjur af því að einhver úr hennar flokki hlaupist undan merkjum. „Það hefur alltaf verið góður flokksagi í Danska þjóðarflokkum," segir hún og hvetur Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, til að halda vel utan um sitt fólk í Venstre.
Dennis Flood segir, að hópurinn geri sér fulla grein fyrir því, að málið fjalli í raun um grundvallarmál. „Það áhugaverð spurning hvort hægt sé að kaupa stjórnmálamenn til fylgis við skoðanir og við viljum með þessu sýna fram á hve naumur þingmeirihlutinn í raun er."
Laust fyrir klukkan 15 að íslenskum tíma hafði verið lofað 91.600 króna framlögum til þessa óvenjulega málefnis.