Japanski hvalveiðiflotinn heldur í nótt af stað frá Shimonoseki í Japan til Suðurhafa þar sem áformað er að veiða yfir 1000 hvali í vísindaskyni, þar á meðal 50 hnúfubaka, sem hafa ekki verið veiddir frá því á sjöunda áratug síðustu aldar. Verksmiðjuskipið Nisshin Maru, sem laskaðist í eldi á síðustu vertíð, hefur nú verið lagfært og fer með veiðiflotanum.
Hávær gagnrýni hefur komið fram vegna hnúfubakaveiðanna og hafa áströlsk stjórnvöld m.a. sagt, að þar í landi yrði litið á slíkt sem ögrun og yrði til þess fallið að sverta orðstír Japana meðal Ástrala.
Og bandarísku umhverfisverndarsamtökin Sea Shepherd segja, að þau muni líta á veiðar á hnúfubökum sem stríðsyfirlýsinu.
Á síðustu vertíð reyndu liðsmenn Sea Shepherd hvað þeir gátu til að trufla veiðarnar og köstuðu m.a. flöskum fullum af eiturefnum að skipunum. Eldur braust síðar út um borð í Nisshin Maru en bæði Japanar og Sea Shepherd sögðu að það hefði ekki tengst mótmælunum. Japanar ákváðu þá að hætta veiðum þótt aðeins hefði veiðst um helmingur kvótans.