Pólverjar ætla að kalla hermenn sína heim frá Írak

Pólskir hermenn í Diwaniya, 180 suður af Bagdad.
Pólskir hermenn í Diwaniya, 180 suður af Bagdad. Reuters

Eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar Póllands, sem tók við völdum í gær, var að ákveða að á næsta ári verði hermenn Pólverja í Írak kallaðir heim. Bogdan Klich, nýr varnarmálaráðherra, skýrði frá þessu í morgun í útvarpsviðtali en sagði, að nánar verði gerð grein fyrir brottflutningnum í næstu viku, Um 900 pólskir hermenn eru í Írak. 22 Pólverjar hafa látið þar lífið frá innrásinni 2003.

Pólverjar hafa verið meðal dyggustu stuðningsmenn Bandaríkjamanna í aðgerðunum í Írak. Pólskar hersveitir tóku þátt í innrásinni, ýmsum öðrum Evrópubandalagsríkjum til mikillar gremju, einkum Frökkum.

Tengsl Bandaríkjanna og Póllands styrktust þegar Laga- og réttarflokkur Kaczynzkitvíburanna náði völdum í Póllandi og stjórnvöld tilkynntu, að til stæði að senda nýjan hóp hermanna til Íraks á næsta ári.

Nú er Donald Tusk, formaður Borgaravettvangsins, tekinn við embætti forsætisráðherra en hann hét því í kosningabaráttunni að kalla pólska herinn heim.

Edward Pietrzyk, sendiherra Póllands í Írak, særðist alvarlega í október og bílstjóri hans lét lífið þegar sprengja sprakk í vegarkanti í Bagdad.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka