Yfirvöld í Bangladesh greindu frá því í dag að tala látinna af völdum gífurlegs fellibyls sem skall á strönd landsins á fimmtudagskvöldið væri komin í tvö þúsund, og öruggt væri að hún ætti eftir að hækka. Milljónir manna hefðu misst heimili sín og liðu skort. Björgunarmenn eru enn að reyna að ná til afskekktra byggðarlaga sem fellibylurinn fór yfir.
Fátækt í heiminum er óvíða meiri en á mörgum þeim svæðum sem fellibylurinn fór yfir. Margir sem lifðu af segjast vera bjargarlausir og skorta mat og drykkjavatn. Óttast er að fjöldi manns muni deyja úr hungri.