Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad lagði til á ráðstefnu Opec-ríkjanna að olíuframleiðendur hættu að selja vöru sína fyrir Bandaríkjadali og kallaði þann gjaldmiðil verðlausa pappírssnepla. Ahmadinejad reyndi að koma þessari árás sinni á Bandaríkjadalinn inn í lokaályktun ráðstefnunnar sem haldin var í Sádí-Arabíu en það fékkst ekki samþykkt.
Ályktun ráðstefnunnar fjallaði þess í stað að mestu um umhverfismál og öryggismál innan olíuframleiðslunnar. Leiðtogar Opec hétu því að halda áfram að sjá heiminum fyrir olíubirgðum.
Að sögn BBC sagði Ahmadinejad við blaðamenn eftir fundinn að allir leiðtogar innan Opec væru óánægðir með fall gengis Bandaríkjadalsins upp á síðkastið því það hefði áhrif á tekjur þeirra vegna þess að langflestir þeirra selja sína olíu á mörkuðum sem versla með Bandaríkjadali.
Ahmadinejad sagði blaðamönnum að Bandaríkin fengju olíuna en olíuframleiðendur fengju verðlausa pappírssnepla í staðinn.