Tala fanga í bandarískum fangelsum hefur áttfaldast frá 1970, en það hefur litlu breytt um glæpatíðni og kostað skattborgarana miklar fjárhæðir, segir í niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Alls eru yfir 1,5 milljónir fanga í bandarískum fangelsum, og er því spáð að þeim muni fjölga um tæplega 200.000 á fimm árum.
Bandarísk rannsóknamiðstöð, sem komst að þessum niðurstöðum, mælir með því að fangelsisdómum verði fækkað og þeir styttir. Ekkert bendi til að langir fangelsisdómar auki öryggi almennra borgara.
Glæpatíðni í Bandaríkjunum hefur minnkað síðan á síðasta áratug, og er hún nú um það bil eins og hún var 1973. Föngum hefur aftur á móti snarfjölgað vegna þess að þeir eru nú dæmdir til lengri vistar og þeir sem rjúfa skilorð eru nú líklegri til að vera settir inn.
Á ári hverju eru hundruð þúsunda Bandaríkjamanna settir í fangelsi „fyrir afbrot sem samfélaginu stafar lítil eða engin hætta eða ógn af,“ segir í niðurstöðum rannsóknamiðstöðvarinnar.