Bílaborgin Detroit er hættulegasta borg Bandaríkjanna, samkvæmt umdeildum niðurstöðum sem einkarekið rannsóknasetur byggir á glæpatölfræði Alríkislögreglunnar (FBI) og birti í gær. Samtök bandarískra afbrotafræðinga hafa andmælt og segja niðurstöðurnar „ábyrgðarlausa misnotkun“ á glæpatölum.
Í gögnum FBI er tekið tillit til hlutfallslegrar tíðni morða, nauðgana, rána, líkamsárás, innbrota og bílþjófnaða í 378 borgum, með að minnsta kosti 75.000 íbúa.
Samkvæmt hinum umdeildu niðurstöðum rannsóknasetursins CQ Press er St.Louis næst-hættulegasta borgin, en taldist sú hættulegasta í fyrra, og sú þriðja er Flint, sem er skammt frá Detroit. Meðal fleiri hættulegra borga eru Birmingham í Alabama, Oakland í Kaliforníu og Cleveland.
Öruggasta borg Bandaríkjanna er aftur á móti Mission Viejo í Kaliforníu, síðan Clarkstown í New York og Brick í New Jersey.