Lést eftir að hafa verið skotinn með rafmagnsbyssu

Bandarískur lögreglumaður sést hér munda rafbyssu.
Bandarískur lögreglumaður sést hér munda rafbyssu. AP

Tvítugur Bandaríkjamaður lést í Maryland í Bandaríkjunum í nótt eftir að lögregla skaut á hann með rafmagnsbyssu, sem ætlað er að lama fólk í stuttan tíma. Fyrir viku lést Pólverji á fimmtugsaldri í flugstöðinni í Vancouver í Kanada eftir að flugvallarlögreglumenn skutu á hann með rafbyssum.

Lögreglan var kölluð til í Frederick í Maryland í nótt vegna slagsmála. Lögreglumaður skaut með rafbyssu sinni á einn af mönnunum, sem tókust á og hann féll meðvitundarlaus á jörðina. Hann var fluttur á sjúkrahús en var úrskurðaður látinn þar.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa lýst áhyggjum yfir því að lögregla beiti vopnum af þessu tagi, og bendir á, að yfir 150 manns hafi frá árinu 2001 látið lífið eftir að hafa fengið í sig rafstraum frá rafmagnsbyssum.

Fyrirtækið Taser International, sem framleiðir byssurnar, segir í tilkynningu, að í flestum tilfellum hafi aðrir þættir átt stærstan þátt í dauðsföllum, sem hafa verið rakin til notkunar byssanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert