Segja óþarft að veiða hvali til að rannsaka þá

Hægt er að afla svo að segja allra nauðsynlegra gagna til að rannsaka stofnstærðir hvala án þess að veiða þá, sagði talsmaður Bandaríkjastjórnar í dag er hann hvatti Japana til að hverfa frá fyrirhuguðum veiðum á hnúfubak, langreyð og hrefnu, alls um þúsund hvölum

Japönsk hvalveiðiskip lögðu úr höfn í gær og héldu til Suðuríshafsins þar sem veiða á allt að 50 hnúfubaka, 50 langreyðar og 935 hrefnur í vísindaskyni. Fiskistofa í Japan segir þetta umfangsmestu vísindaveiðar á hvölum sem fram hafi farið, og muni þær standa fram í apríl.

„Við hvetjum Japana til að hverfa frá veiðunum að þessu sinni, einkum á hnúfubak og langreyð,“ sagði Sean McCormack, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins. Báðar þessar tegundir væru verndaðar.

Ekki væri þörf á að veiða hvalina til að ná þeim vísindamarkmiðum sem Japanar segðu að væru með veiðunum. Bandaríkjastjórn viðurkenndi engu að síður lagalegan rétt Japana til veiðanna.

McCormack hvatti ennfremur hvalaverndarsamtök sem ætluðu að senda skip á miðin til að „fara að öllu með gát.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert