Fréttaljósmyndari sakaður um að aðstoða hryðjuverkamenn

Bilal Hussein.
Bilal Hussein. Reuters

Bandaríkjaher segist ætla mæla með því að fréttaljósmyndari AP-fréttastofunnar verði ákærður en hann er sakaður um að hafa hjálpað írönskum uppreisnarmönnum árið 2006.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir að ný sönnunargögn hafi litið dagsins ljós sem sanni að Bilal Hussein starfi í raun fyrir hryðjuverkamenn. 

Íraskir dómarar munu nú taka málið til meðferðar og ákveða hvort hefja eigi réttarhöld eður ei.

Forsvarsmenn AP-fréttastofunnar segjast ekki hafa fundið sönnunargögn um neitt annað en að Hussein sé íraskur blaðamaður sem starfar á stríðssvæði.

Lögmenn fréttastofunnar segja að þeim hafi verið meinaður aðgangur að Hussein og þeim sönnunargögnum sem eiga að sanna sekt hans. Af þeim sökum er ómögulegt fyrir lögmennina að koma honum til varnar.

Hussein var hluti af hópi ljósmyndara hjá AP-fréttastofunni sem hlutu Pulitzer-verðlaunin árið 2005.

Að sögn bandarískra embættismanna er þetta ekki í fyrsta sinn sem Hussein sé grunaður um að hafa aðstoðað hryðjuverkamenn, því þau segja að hann hafi mjög oft verið réttur maður á réttum stað þegar uppreisnarmenn gerðu árásir.

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins BBC skýrði frá þessu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert