Ian Smith, síðasti forseti Afríkuríkisins Ródesíu, er látinn 88 ára að aldri. Smith sagði eitt sinn, að blökkumenn myndu ekki ná völdum í landinu á næstu þúsund árum en fjórum árum síðar hafði Robert Mugabe verið kjörinn forseti og nafni landsins breytt í Simbabve.
Smith stýrði landinu í 15 ár, frá árinu 1964 til 1979 og lýsti á þeim tíma m.a. yfir einhliða sjálfstæði frá Bretlandi og háði stríð gegn skæruliðum blökkumanna, sem voru í miklum meirihluta í landinu. Smith hélt því fram að stjórn hans væri að reyna að auka menntun svarta meirihlutans smátt og smátt en umheimurinn taldi að ríkisstjórn Smiths léti stjórnast af kynþáttahatri og tilraunum til að upphefja hvíta minnihlutann.
Smith fæddist í Suður-Ródesíu árið 1919, sonur auðugs skosks innflytjanda. Hann var orrustuflugmaður í síðari heimsstyrjöld en hóf þátttöku í stjórnmálum 1948. Árið 1965 lýsti hann yfir sjálfstæði landsins frá Bretlandi en umheimurinn neitaði að viðurkenna stjórn hans. Eftir að Suður-Afríka hætti að veita stjórn Ródesíu stuðning neyddist Smith til að taka upp viðræður við Abel Muzorewa, biskup, sem var hófsamur leiðtogi blökkumanna, og þær viðræður leiddu til þess að landið fékk fullt sjálfstæði undir stjórn svartra. Muzorewa tapaði síðan kosningum fyrir skæruliðaleiðtoganum Robert Mugabe árið 1980, sem varð fyrsti eiginlegi svarti leiðtogi landsins.
Smith var áfram áhrifamikill stjórnmálamaður í Simbabve og sat á þingi landsins til 1987 þar til sérstök þingsætri hvítra voru aflögð. Hann gagnrýndi Mubabe harðlega og sagði hann hafa eyðilagt landið og væri ekki með réttu ráði.