Kosovo-Albanar varaðir við að ana út í sjálfstæði

Hashim Thaci, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Kosovo, er hann greiddi atkvæði …
Hashim Thaci, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Kosovo, er hann greiddi atkvæði í kosningunum á laugardag. AP

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna hafa hvatt Kosovo-Albana til að ana ekki út í neitt í kjölfar kosninganna sem fram fóru í héraðinu á laugardag. Hashim Thaci, leiðtogi flokks aðskilnaðarsinna sem vann stórsigur í kosningunum, hefur lýst því yfir að sjálfstæði héraðsins verði lýst yfir um leið og viðræður hafa farið fram við fulltrúa serbneska minnihlutans í landinu.

Bandaríkjastjórn styður sjálfstæði Kosvo en Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar segir jafnvægið á Balkanskaga enn vera viðkvæmt og því sé mjúk lending nauðsynleg í málinu. Í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna er einnig lögð áhersla á að hugsanleg ákvörðun um sjálfstæði Kosovo verði tekin í samráði við alþjóðasamfélagið. Þá hefur Jim Murphy, Evrópumálaráðherra Breta, varað við því að einhliða sjálfstæðisyfirlýsing geti einangrað héraðið á alþjóðavettvangi og bundið enda á aðstoð alþjóðasamfélagsins við íbúa þess.

Yfirvöld í Serbíu eru alfarið mótfallin sjálfstæði Kosovo og hafa þau varað við því að einhliða sjálfstæðisyfirlýsing yfirvalda í Kosovo geti leitt til átaka á Balkanskaga. Þá óttast yfirvöld í mörgum nágrannaríkjum Kosovo að sjálfstæði þess muni verða aðskilnaðarsinnum annars staðar í Evrópu hvatning til að herða baráttu sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert