Staðfest að kosningar fara fram í Pakistan 8. janúar

Konur úr samtökunum Jamal Islamia mótmæla neyðarlögunum í Pakistan.
Konur úr samtökunum Jamal Islamia mótmæla neyðarlögunum í Pakistan. AP

Staðfest hefur verið að kosningar verði haldnar í Pakistan þann 8. janúar á næsta ári. Qazi Muhammad Farooq, yfirmaður kjörstjórnar í landinu, segir að kosningar, bæði til þjóðþings landsins og héraðsþinga muni fara fram þann dag. Ekki liggur hins vegar fyrir hvort aðrir frambjóðendur en stuðningsmenn Pervez Musharrafs, forseta landsins, muni bjóða sig fram í kosningunum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Farooq segir kjörstjórn hafa gert allar ráðstafanir til að kosningarnar verði frjálsar, gegnsæjar og hlutlausar og að alþjóðlegum kosningaeftirlitsmönnum verði heimilað að koma til landsins til að fylgjast með framkvæmd þeirra.

Helstu leiðtogar Þjóðarflokks Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra landsins, munu koma saman í Karachi í dag til að ákveða hvort flokkurinn bjóði fram í kosningunum.

Musharraf hefur neitað að verða við kröfum um að aflétta neyðarlögum í landinu og staðhæfir að kosningar geti farið fram með eðlilegum hætti þrátt fyrir að neyðarlög séu í gildi í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert