Bandaríkjastjórn gagnrýnir ekki refsingu fórnarlambs nauðgunar

Bandaríkjastjórn sætir nú gagnrýni fyrir að hafa ekki gagnrýnt dóm sem féll í Sádi-Arabíu í síðustu viku en samkvæmt dómnum þarf fórnarlamb hópnauðgunar þar í landi að þola 200 svipuhögg fyrir að vera ein í námunda við sér óskylda karlmenn. Þá var stúlkan dæmd til hálfs árs fangelsisvistar vegna málsins. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins lýsti í gær yfir furðu vegna dómsins. Það vakti hins vegar athygli að talsmaðurinn Sean McCormack gagnrýndi ekki dóminn er hann var spurður um málið á blaðamannafundi í gær. „Ég verð að segja það að líti maður á glæpinn og þá refsingu sem fórnarlambið hefur verið dæmt til þá vekur það vissa furðu og undrun,” sagði hann. Spurður um það hvort Bandaríkjastjórn veigri sér við því að gagnrýna dóminn vegna mikilvægis sambands Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu í baráttunni gegn hryðjuverkum sagði hann svo ekki vera.

Dómur í málinu féll í síðustu viku en auk þess sem fórnarlambið, sem er nítján ára stúlka, var dæmd til hýðingar og fangelsisvistar voru sex karlmenn dæmdir í tveggja til níu ára fangelsisvistar fyrir að nauðga henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert